Innlent

Áróðursmyndir Hitlers um Ísland

Sjötíu ára gamlar áróðursmyndir um Ísland, sem fundust í ríkissafni Hitlersstjórnarinnar, er meðal þess sem Kvikmyndasafn Íslands sýnir í Bæjarbíói um þessar mundir. Áróðursmyndirnar voru gerðar með það fyrir augum að útlista kosti landvinninga á fjarlægum slóðum.  Myndirnar eru fjórar, um tíu mínútur að lengd, og hafa aldrei áður verið sýndar á tjaldi og í fullri lengd hér á landi. Erlendur Sveinsson kvikmyndagerðarmaður hafði uppi á þeim árið 1978 hjá austur-þýska kvikmyndasafninu sem geymdi ríkissafn Hitlersstjórarinnar. Þar var honum sagt að tilgangur með gerð myndanna hefði verið að nýta þær í áróðursskyni, eða vekja áhuga þýsku þjóðarinnar á fjarlægum löndum. Tópis-Klang Film gaf myndirnar út og kallaði þær „menningarmyndir“ en sá sem var yfir því kvikmyndafyrirtæki á þeim tíma var enginn annar en Göbbels, áróðursmálaráðherra Þýskalands. Myndirnar voru hins vegar gerðar undir stjórn Austur-Þjóðverjans Pauls Burkert sem notaði alls kyns starfsheiti eins og doktor í ljósmyndum og vísindamaður í málefnum Norðurslóða.  Hann fékk ýmis fyrirtæki til að kosta vísindaleiðangra til Íslands og kom hingað 1934 og 1935 með það í huga að rannsaka land og þjóð og kvikmynda. Það gerði hann og gaf að auki út tvær bækur um Ísland. Atvinnuvegirnir, jarðvarmi og vatnsföll voru meðal efnistaka Burkerts. Erlendur segir það alveg sérstaka tilfinningu að sjá þessar myndir, sem teknar eru á 35mm filmu, uppi á kvikmyndatjaldinu. Hann á því von á að myndirnar verði sýndar áfram á vegum Kvikmyndasafnsins í alls konar samhengi. Þar er meðal annars að finna einstakar myndar, teknar um borð í gamla Gullfossi og myndskeið af Landspítalanaum sem eru líklega með fyrstu myndum sem þar voru teknar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×