Erlent

Eldflaugarárás nærri Græna svæðinu

Að minnsta kosti einn írakskur borgari lést og annar særðist þegar skæruliðar skutu eldflaugasprengju í miðri Bagdad í morgun. Sprengjan lenti nærri „Græna svæðinu“ svokallaða þar sem eru sendiráð Bandaríkjanna og aðsetur íröksku bráðabirgðastjórnarinnar. Nokkrir bílar skemmdust í árásinni en sprengjum hefur ítrekað verið skotið á svæðið. Þá var yfirmaður sjúkrahúss í Suður-Bagdad drepinn í gærkvöldi. Talsmaður írakska heilbrigðisráðuneytisins segir al-Ubadi, aðstoðarforstjóra sjúkrahússins, hafa fallið í skæruliðaárás en skýrði það ekki nánar. Skæruliðar hafa drepið nokkra yfirmenn að undanförnu en í gær var starfsmaður írakska innanríkisráðuneytisins skotinn til bana nærri heimili sínu í Bagdad.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×