Erlent

Kosningar í Írak 30. janúar

Kosninganefnd Íraks ákvað í morgun dagsetningu á fyrirhugaðar kosningar í landinu og var ákveðið að Írakar gangi að kjörborðinu þann 30. janúar næstkomandi. Mikil óöld ríkir í landinu og margir fréttaskýrendur hafa talið óvarlegt að boða til kosninga að svo komnu máli á meðan ekki hefur tekist að ná tökum á uppreisnarhópum víðs vegar um landið. Þingið sem verður kosið mun aðeins sitja tímabundið og helsta verkefni þess verður að skipa nýja ríkisstjórn og samþykkja nýja stjórnarskrá. Sjíta- og súnní-múslimar deila hart um þessar fyrirhuguðu kosningar. Sjíta-múslimar eru í meirihluta í landinu og vonast til að kosningarnar muni endurspegla samsetningu íbúanna og koma þeim til valda. Súnní-múslimar, sem eru í minnihluta, vilja hins vegar fresta kosningunum, bæði þar sem þeir hafa í áraraðir ráðið öllu í Írak í gegnum Saddam Hússein og sjá fram á mikla valdatilfærslu, en eins vegna þess að algert upplausnarástand ríkir á svæðum súnníta þar sem enn er hart barist á milli uppreisnarhópa og bandarískra hermanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×