Erlent

Kusu tengsl við Vesturlönd

Útgönguspár seinni umferðar forsetakosninga í Úkraínu sem voru í gær benda til þess að Viktor Júsjenko beri sigur úr býtum. Samkvæmt skoðanakönnun sem studd er af Bandaríkjastjórn og byggð á svörum tuttugu þúsunda borgara um allt land hefur hann hlotið 58 prósent atkvæða. Júsjenko vill efla tengsl Úkraínu við Vesturlönd. Viktor Janukovitsj forsætisráðherra, sem studdur er af Vladimír Pútín Rússlandsforseta og fráfarandi forseta landsins til tíu ára, Leoníd Kútsjma, virðist hafa lotið í lægra haldi. Hann vill efla tengsl Úkraínu og Rússlands á nýjan leik eftir þrettán ára aðskilnað. Skoðanakannanir sýna misjafnan mun á frambjóðendunum. Minnstur er hann 3,5 prósent, Júsjenko með 49,4 prósent en Janukovitsj 45,9 prósent. Um 37 miljónir Úkraínumanna voru á kjörskrá. Fyrri kosningarnar fóru fram 31. október. Forskot Júsjenko nam þá 156 þúsund atkvæðum. Þá var hræðst að kjósendur þyrðu ekki að stugga við Janukovitsj. Hefur því verið haldið á lofti að kosningastjórar reyni að falsa niðurstöðurnar honum í vil. Opinberra niðurstaðna er að vænta í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×