Innlent

Varnir verði tryggðar

Davíð Oddsson utanríkisráðherra fer til fundar við Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington um miðjan mánuðinn til að ræða varnarsamninginn. Davíð segir að byggt verði á þeim grunni að tryggja fullnægjandi varnir Íslands en að engu sé hægt að lofa um árangur á þessu stigi. Colin Powell hringdi í Davíð nýverið til að óska honum góðs bata í veikindum sínum og minnti á að hann væri reiðubúinn til viðræðna. Ákveðið var svo að utanríkisráðherrarnir myndu hittast þann 16. nóvember og fer nú í hönd mikil vinna embættismanna beggja vegna hafsins við undirbúning fundarins. Davíð segir ekki víst að það takist að ljúka gerð varnarsamningsins á fundinum en segir mikilvægt að það þokist áleiðis því óvissan sé slæm. Meginefnið hafi hins vegar náðst í gegn á fundi hans og Bush fyrr á árinu, að varnarsamningurinn eigi að tryggja varnir sem Íslendingar telji fullnægjandi. Utanríkisráðherra væntir því að þau sjónarmið verði lögð til grundvallar á fundi hans og Powell, hvernig sem kosningarnar í Bandaríkjunum fari.    Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir hluta af fullveldi sérhverrar þjóðar vera loftvarnir. Fréttir af því að verið sé að flytja úr landi vopn þeirra bandarísku flugvéla sem verja eigi Ísland séu því ákaflega skrítnar, sem og að bandarísk stjórnvöld geti ekki gert þeim íslensku skýra grein fyrir því með hvaða hætti þau standi við sinn hluta varnarsamningsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×