Erlent

Semja um friðsamlega lausn

Mennirnir sem takast enn á um völdin í Úkraínu, tæpri viku eftir seinni umferð forsetakosninganna, samþykktu í gær að semja um friðsamlega lausn deilunnar sem hefur valdið uppnámi í Úkraínu. Viktor Janukovitsj forsætisráðherra og Viktor Júsjenko, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hittust í gærkvöldi á fundi með Leoníd Kútsjma, fráfarandi forseta. "Til að tryggja samningaferlið hafa fylkingarnar myndað vinnuhóp til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um lausn þessarar stjórnarkreppu," sagði Kútsjma eftir fund þremenninganna í gærkvöldi. Hvorki Janukovitsj né Júsjenko tjáðu sig að fundi loknum. Mótmæli héldu áfram í borgum Úkraínu í gær. Janukovitsj komst ekki til vinnu sinnar í stjórnarráðinu í gær þar sem þúsundir manna höfðu tekið sér stöðu við húsið. "Þetta hefur lamað stjórnina," sagði Anna German, talsmaður hans. Tugþúsundir stuðningsmanna Janukovitsj komu til höfuðborgarinnar Kænugarðs í gær. Fram að því höfðu mótmælendur í borginni allir stutt við bakið á Júsjenko.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×