Erlent

Ástandið að skána

Stjórnmálaástandið í Úkraínu er nú að róast eftir að fráfarandi forseti landsins sagði að hann myndi virða úrskurð Hæstaréttar um að endurtaka eigi síðari umferð forsetakosninganna. Leonid Kuchma, fráfarandi forseti lýsti því yfir á fundi með ráðherrum, í dag, að hann myndi virða úrskurð hæstaréttar frá því á föstudag. Þetta voru hans fyrstu viðbrögð við úrskurðinum.  Það hefur einnig lækkað hitastigið í pólitíkinni að Vladimir Putin, forseti Rússlands, lýsti því yfir að Rússar væru tilbúnir að vinna með hverjum þeim sem yrði forseti Úkraínu. Putin hefur fram til þessa stutt Viktor Janúkóvitsj forsætisráðherra, með ráðum og dáð, en Janúkóvitsj var sakaður um að hafa sigrað í forsetakosningunum með stórfelldu svindli. Leonid Kuchma sagði í dag að þingið þyrfti að gera ýmsar ráðstafanir til þess að minnka spennu, í landinu, og undirbúa nýjar kosningar. Forstöðumaður Karnegie stofnunarinnar, í Moskvu, segir að Rússar hafi aðeins gert ástandið verra með afskiptum sínum. Þótt svo virðist sem menn séu að ná áttum, í Úkraínu, er enn eftir það erfiða verkefni að fá stjórn og stjórnarandstöðu til þess að koma sér saman um breytingar sem þarf að gera á kosningalögum og stjórnarskrá landsins, áður en hægt verður að endurtaka forsetakosningarnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×