Erlent

15 féllu í Sadí-Arabíu

Fimmtán manns féllu og nokkrir særðust í árás á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna, í Jeddah, í Sádi-Arabíu, í dag. Talið er víst að árásarmennirnir hafi verið liðsmenn Al Kaida hryðjuverkasamtakanna. Sádí-Arabískir hermenn umkringdu ræðismannsstofuna mjög fljótlega og réðust síðan til inngöngu. Þeir drápu þrjá árásarmannanna og særðu og handtóku hina tvo. Í fyrstu fréttum sagði að átján starfsmenn skrifstofunnar hefðu verið teknir í gíslingu, en bandarískur talsmaður neitar því að svo hafi verið. Hann sagði hugsanlegt að misskilningur hefði orðið vegna þess að margir starfsmenn leituðu hælis í öryggisbyrgi. Ræðismannsskrifstofan er rammlega víggirt og þar eru öryggisbyrgi sem hægt er að flýja inní, ef árás er gerð. Þau eru sprengjuheld, skotheld og eldtraust, og hafa hugsanlega orðið til þess að mannfall varð ekki meira. Talið er víst að árásarmennirnir hafi verið liðsmenn Al Kaida, en félagar í þeim hryðjuverkasamtökum hafa gert margar mannskæðar árásir í Saudi-Arabíu á undanförnum misserum. Þetta er þó fyrsta meiriháttar árásin sem gerð hefur verið síðan í maí.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×