Erlent

ETA ekki af baki dottnir

Aðskilnaðarhreyfing baska sprengdi í dag sjö sprengjur í sjö borgum Spánar. Tjónið var ekki mikið, en þetta er áfall fyrir Spánverja, sem héldu að nánast væri búið að uppræta hreyfinguna.  Sprengjurnar sprungu allar á sama tíma, og var það endurtekning frá því á föstudaginn, þegar fimm sprengjur sprungu í fimm borgum. Í báðum tilfellunum var hringt í fjölmiðla til þess að vara við sprengjunum. Manntjón varð því ekkert og skemmdir óverulegar. Margir foringjar í ETA, aðskilnaðarhreyfingu baska hafa verið handteknir undanfarið, og hreyfingin hefur lítið látið á sér bera síðustu misserin. Það er því áfall fyrir Spánverja að ETA skuli aftur komin á kreik, ekki síst eftir hinar mannskæðu árásir al-Kaida á járnbrautarlestarnar í Madrid, fyrr á þessu ári. Spánverjum þykir alveg nóg að þurfa að berjast við erlenda fjendur, og vilja ekki fá þá innlendu í bakið á sér. Baskahéruðin á Norður-Spáni njóta mikillar sjálfsstjórnar. Aðskilnaðarhreyfingin vill hinsvegar fullt sjálfstæði. Áratuga barátta hennar fyrir því hefur kostað yfir áttahundruð manns lífið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×