Erlent

Tólf féllu í bardaga í Jeddah

Tólf lágu í valnum eftir bardaga á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í sádi-arabísku hafnarborginni Jeddah. Bardaginn braust út eftir að hópur vígamanna, sem grunaðir eru um tengsl við al-Kaída, braut sér leið inn í ræðismannsskrifstofuna og náði henni á sitt vald. Fimm sádi-arabískir starfsmenn sendiráðsins, fjórir þjóðvarðliðar og þrír árásarmenn féllu áður en yfir lauk. Árásin fylgir í kjölfar fjölda árása sem hafa verið gerðar á vestræna menn og vestræn skotmörk í Sádi-Arabíu síðustu nítján mánuði, þær árásir hafa kostað um níutíu manns lífið. Árásin í gær er þó fyrsta slíka árásin sem er gerð á sendiráð eða ræðismannsskrifstofu erlends ríkis. Í fyrstu var talið að árásarmennirnir hefðu tekið átján starfsmenn sendiráðsins í gíslingu. Síðar kom í ljós að þeir höfðu lokað sig af í hluta húsnæðisins og biðu þess þar að öryggissveitir kæmu þeim til hjálpar. Sprengingar heyrðust og mikið var skotið af hríðskotarifflum "Árásirnar í Sádi-Arabíu minna okkur á að hryðjuverkamenn eru enn í vígahug," sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti eftir árásina. "Þeir vilja að við förum frá Sádi-Arabíu, þeir vilja að við förum frá Írak, þeir vilja þreyta okkur og hræða."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×