Erlent

Myndir af pyntingum á föngum

Bandarísk hernaðaryfirvöld kanna nú myndir sem sýna sérsveitarmenn flotans pynta írakska fanga. Þær þykja minna um margt á óhugnanlegar myndir frá Abu Graib fangelsinu í Írak. Fréttamaður AP- fréttastofunnar fann myndirnar á vefsíðu sem er öllum aðgengileg en þar fara myndaskipti fram. Eignkona hermanns sem starfaði í Írak er sögð hafa komið þeim á framfæri. Þær eru um fjörutíu talsins og ef um ófalsaðar myndir er að ræða má sjá á dagsetningu þeirra að þær voru teknar þó nokkrum mánuðum fyrr en myndirnar í Abu Graib fangelsinu, sem vöktu mikinn óhugnað um alla heimsbyggðina. Sérfræðingar í herrétti segja þó óljóst hvort hermennirnir á myndunum hafi í raun að brotið lög með framferði sínu en bandarísk hernaðaryfirvöld segjast munu rannsaka málið í þaula. Myndirnar eru taldar vera teknar inni á írökskum heimilum eftir að hermenn hafa tekið mennina til fanga. Á mörgum þeirra eru andlit hermannanna greinileg en þær hafa ekki verið birtar í fjölmiðlum af greiðasemi við fjölskyldur þeirra sem á þeim eru. Myndirnar vekja óneitanlega upp fjölmargar spurningar um framferði bandarískra hermanna gagnvart stríðsföngum og gefa sterklega til kynna að ofbeldið í Abu Graib fangelsinu hafi ekki verið einangrað tilfelli.
MYND/AP
MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×