Erlent

Falluja í hendur Bandaríkjanna

Eftir tæplega vikulanga bardaga segjast bandarískir og íraskir hermenn í Falluja í Írak hafa náð stjórn á næstum allri borginni, en hún var áður undir yfirráðum skæruliða. Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að nokkir hópar skæruliða séu í borginni en að hersveitir undir stjórn Bandaríkjamanna ráði þar nánast öllu. Muni þeir ekki ná algjörri stjórn á Falluja fyrr en leitað hefur verið í byggingum að fleiri skæruliðum. Mun sú leit væntanlega standa yfir þar til seint í þessari viku. Hjálpargögn eru þegar tekin að berast til borgarinnar og verður þeim væntanlega dreift til óbreyttra borgara á næstu dögum. Hingað til hefur verið bannað að dreifa hjálpargögnum á meðan bardagar hafa staðið yfir og hefur það valdið miklum áhyggjum hjálparstofnana. Talið er að 31 bandarískur hermaður og sex íraskir hermenn hafi fallið í átökunum sem undanfarið hafa staðið yfir um Falluja. Alls segjast Bandaríkjamenn hafa drepið 1.200 skæruliða í borginni síðan bardagarnir hófust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×