Erlent

NATO hefur ekkert hlutverk í Írak

Atlantshafsbandalagið hefur ekkert hlutverk í Írak, nema lögbundin ríkisstjórn í Íraks óski sjálf eftir því. Þetta segir framkvæmdastjóri bandalagsins, sem kom til landsins í gær, og átti fund með íslenskum stjórnvöldum. Jaap De Hoop Scheffer er í sinni fyrstu heimsókn á Íslandi sem framkvæmdastjóri NATO en hefur raunar komið tvisvar áður til landsins í öðrum tilgangi. Á fundi með Davíð Oddssyni forsætisráðherra og Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra ræddi Scheffer hlutverk bandalagsins sem hefur breyst verulega á undanförnum árum og verður enn til skoðunar á fundi bandalagsins í Istanbúl eftir helgi. Þar verður meðal annars rætt um hugsanlegar aðgerðir NATO í Írak, sem Scheffer segir að komi aðeins til greina ef Írakar óski sjálfir eftir því. „Það er fullkomlega lögleg ríkisstjórn í Bagdad samkvæmt ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og lykillinn er því í Bagdad,“ sagði Scheffer á blaðamannafundi eftir fund sinn með Davíð og Halldór í gær. Á fundinum, sem fram fór í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötum, var líka rætt um hvort bandaríski herinn hverfi frá Íslandi en sem kunnugt er hafa slíkar hugmyndir fallið í grýttan jarðveg hjá íslenskum stjórnvöldum. Scheffer segist vera tilbúinn að leggja því máli lið með einhverjum hætti líkt og forveri hans, Robinson lávarður, gerði á sínum tíma. Hann ítrekar þó að hér sé fyrst og fremst um málefni ríkjanna tveggja að ræða. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×