Erlent

Ný ríkisstjórn í Ísrael

Unnið er að myndun nýrrar ríkisstjórnar í Ísrael þar sem Ariel Sharon forsætisráðherra og stjórnarandstöðuleiðtoginn Símon Peres hafa tekið höndum saman. Með þessu gæti Sharon aflað nægs stuðnings við áætlanir sínar um að Ísraelsmenn fari frá landnemabyggðum á Gasa. Ariel Sharon hefur ekki tekist að afla stuðnings innan síns eigin flokks, Líkúd-flokksins, við áætlanir um að Ísraelsmenn hverfi alfarið frá landnemabyggðum á Gasasvæðinu og fjórum svæðum á vesturbakkanum og eftirláti þannig Palestínumönnum landsvæðið. Til þess að koma áætluninni í framkvæmd hefur hann nú tekið höndum saman við Símon Peres, leiðtoga Verkamannaflokksins, sem er í stjórnarandstöðu. Peres segir Sharon hafa boðið sér formlega til viðræðna um myndun stjórnar á fundi þeirra í dag. Hann segir Sharon halda fast við áætlun sína um brotthvarf Ísraela frá áðurnefndum svæðum.  Sharon sagði við flokksfélaga sína í dag að í raun væri ekkert val. Ekki vegna þess að hann vilji það heldur vegna þess að flokkurinn eigi engra kosta völ. Sharon sagði þetta ástand ekki geta varað lengur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×