Erlent

Engin tengsl milli Laden og Saddam

Engin tengsl voru á milli Ósama bin Ladens og Saddams Hússeins. Þetta er mat Donalds Rumsfelds, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Orð hans vöktu athygli í New York í gærkvöldi þegar hann sagðist aldrei hafa séð neinar sannfærandi sannanir fyrir því að nokkurs konar samband væri á milli bin Ladens og Saddams. Tengslin voru ein ástæða innrásarinnar í landið. Paul Bremer, fyrrverandi landsstjóri Íraks, segir í viðtali við Washington Post í dag að ein meginástæða þess hvernig komið sé í landinu sé sú að ekki hafi verið nægar hersveitir þar til að koma á lögum og reglu. Ófremdarástandið í landinu sé afleiðing þess að hafa ekki strax komið skikkan á gang mála. Stjórnarandstaðan gagnrýndi þögn íslenskra stjórnvalda um stríðið í Írak í umræðum á Alþingi í gær. Davíð Oddsson utanríkisráðherra varð til svara og taldi ríkisstjórnina ekki hafa gert mistök í stuðningi sínum við innrásina í Írak. „Ég tel að íslenska ríkisstjórnin hafi tekið skynsamlega ákvörðun, miðað við þá þætti sem þá lágu fyrir hendi, þegar hún ákvað að taka þátt í því, með yfir þrjátíu öðrum ríkjum, að bægja þessum harðstjóra á brott,“ sagði Davíð Oddsson meðal annars. Hægt er að horfa á fréttina úr morgunsjónvarpi Stöðvar 2 með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×