Erlent

Þingið rak ríkisstjórn Úkraínu

Þing Úkraínu rak í morgun ríkisstjórn landsins. 229 þingmenn, þ.e.a.s. þremur fleiri en þurfti, greiddu atkvæði með tillögu um að reka ríkisstjórn Viktors Janúkovítsj forsætisráðherra og að koma á nýrri bráðabirgðastjórn. Einnig verður haldin leynileg atkvæðagreiðsla um hvort reka eigi Janúkovítsj sjálfan. Erlendir sáttasemjarar freista þess nú að finna lausn á deilun stjórnarandstæðinga sem telja að stórfelld kosningasvik hafi verið framin í forsetakosningum fyrir tíu dögum og stjórnarliða sem telja forsætisráðherrann hafa verið kosinn forseta. Upp úr viðræðum slitnaði í gær og virðist með öllu óljóst hvort að Leóníd Kútshma, fráfarandi forseti, og menn hans styðji að forsetakosningarnar verði endurteknar. Kútshma er sagður hafa lýst því yfir að engin lausn sé á deilunni en samkvæmt fréttaskeytum Reuters er hann með öllu mótfallinn endurtekningu því að það væri farsi. Þúsundir stuðningsmanna Viktors Júsjenkos streymdu í nótt og morgun út á götur Kænugarðs, klæddir appelsínugulu sem er litur flokks Júsjenkos. Allt veltur nú á Hæstarétti landsins sem hefur kosningarnar og meint svik í kringum þær til skoðunar. Enn liggur engin niðurstaða fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×