Erlent

40 milljónir smitaðar af alnæmi

Fjörutíu milljónir manna um allan heim eru smitaðar af alnæmisveirunni. Viðhorf til kvenna og samkynhneigðra er víða þrándur í götu forvarna. Alþjóðlegi alnæmisdagurinn er í dag. Þó að alnæmisveiran geri ekki greinarmun á fólki og breiðist út alls staðar er ástandið alvarlegast í sunnanverðri Afríku. Þar er meirihluti smitaðra konur, margar á aldrinum 15-24 ára. Í þeim árgangi eru þrisvar sinnum fleiri konur smitaðar heldur en karlmenn. Ástæðan er meðal annars sú að hver smitaður karlmaður smitar oft margar konur sem eru ekki alltaf í aðstöðu til að hafna kynlífi. Kúgun kvenna er í brennidepli Alþjóðlega alnæmisdagsins sem er í dag en fjöldi smitaðra kvenna hefur margfaldast á tveimur árum. Fáfræði og fordómar hamla einnig baráttunni gegn alnæmisveirunni. Víða er það enn talin skömm að greinast sýktur og sjúkdómurinn tengdur samkynhneigð. Í Kína og á Indlandi, þar sem alnæmi hefur breiðst út með miklum hraða undanfarið, hafa stjórnvöld nú loks ákveðið að takast þurfi á við vandann og hefja opinbera umræðu um vána. Í Kína hittu ráðamenn alnæmissmitaða opinberlega og sögðu þörf á átaki í baráttunni og á Indlandi stendur til að auka forvarnafræðslu meðal ungs fólks og á landsbyggðinni. Rauði kross Íslands heldur úti alnæmisverkefnum í Suður-Afríku, Mósambík og Malaví í samstarfi við Rauða krossinn í þeim löndum. Í þeim verkefnum nær fræðsla um smitleiðir alnæmis til rúmlega 60 þúsund manna og hlúð er að um 700 alnæmissmituðum manneskjum. Rauði kross Íslands hyggst á næstunni leggja aukna áherslu á að ná til barna sem hafa misst foreldra sína í helgreipar alnæmis. Þau fá meðal annars mataraðstoð, styrk til skólagöngu og aðra einstaklingsbundna aðstoð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×