Erlent

Vill hefja viðræður sem fyrst

"Ég sé enga ástæðu til að hefja ekki viðræður, hvort sem er formlega eða óformlega, um endanlega lausn, undir vernd fjórveldanna eða annars ríkis," sagði Mahmoud Abbas, forsætisráðherra Palestínu, í viðtali við egypska tímaritið Al-Mussawar. Hann sagði að ef vilji væri fyrir hendi væri hægt að stofna palestínskt ríki á næsta ári. Palestínskt ríki á að líta dagsins ljós á næsta ári samkvæmt vegvísinum til friðar sem fjórveldin; Bandaríkin, Rússland, Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar, lögðu fram. Abbas er talinn líklegastur til að verða kjörinn eftirmaður Jassers Arafat í kosningum 9. janúar. Hann sagði í viðtalinu við Al-Mussawar að hann myndi halda í kröfuna um að palestínskir flóttamenn fengju að snúa til heimkynna sinna. Það getur flækt viðræður því Ísraelar eru mótfallnir því. Abbas sagðist þó reiðubúinn til að ræða útfærslu sem bæði Ísraelar og Palestínumenn gætu sætt sig við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×