Erlent

Skiptir máli hver verður forseti?

Hvaða máli skiptir hver er forseti Úkraínu? Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður Stöðvar 2, skýrir hvaða áhrif pólitískir straumar í Úkraínu hafa. Slagurinn um forsetaembættið í Úkraínu er um leið átök tveggja hópa sem skipta landinu nánast í tvennt. Í austur- og suðurhluta landsins býr fólk sem talar upp til hópa rússnesku en um sautján prósent íbúa landsins eru Rússar. Aðra sögu er að segja vestanmegin. Þar er mikið um þjóðernissinna og pólsk-ættaða Úkraínumenn sem horfa frekar í vesturátt, til Evrópusambandsins. Frá því að Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 hefur Úkraína hallað sér mjög að Rússlandi og eins og í mörgum nágrannaríkjum hefur vestrænu lýðræði verið tekið með varhug. Efnahagur landsins er bágborinn, þrátt fyrir framfarir á meðan Viktor Janúkóvítsj var forsætisráðherra. Segja má að lýðræðishefð hafi ekki náð fótfestu þar fyrr en hugsanlega nú, eins og sjá má á mótmælunum. Og þar erum við komin að kjarna málsins því úrslit forsetakosninganna skipta að líkindum sköpum um framtíðarstefnu Úkraínu, og um leið þróun stórs hluta austasta hluta Evrópu, enda er Úkranína næststærsta ríki Austur-Evrópu á eftir Rússlandi. Úkraína er á milli vesturlandamæra Rússlands og austurlandamæra Evrópusambandsins. Rússum er mikið í mun að halda þessum dempara og fyndist mjög að sér þrengt væri Evrópusambandið nánast að bæjardyrum Moskvu. Þetta skýrir jafnframt af hverju Pútín Rússlandsforseti skiptir sér af gangi mála og af hverju töluverð spenna hefur myndast á milli Rússlands og Vesturveldanna vegna þessa. Pútín vill halda nágrannaríkjunum undir stjórn eða verndarvæng Rússlands og hætt er við að Rússar tækju vel eftir því yrðu vestræn mannréttindi og velferð áberandi í Úkraínu. Á austurkanti Evrópusambandsins þætti mörgum, einkum Pólverjum, gott að fá vinveitt ríki sér við hlið. Einmitt þess vegna var Kwashiewsky, forseti Póllands, með þeim fyrstu sem héldu til Úkraínu til að miðla málum. Fjörutíu og átta milljónir manna búa í Úkraínu sem er stærra en Frakkland að flatarmáli. Landið liggur ekki einungis að Evrópusambandsríkjum og Rússlandi heldur Moldóvíu og Hvíta-Rússlandi líka. Þessi ríki eru viðskiptavinir Rússa og þeir óttast versnandi kjör og hertar reglur um vegabréfsáritanir, breiði Evrópusambandið út arma sína og bjóði þau velkomin í fangið. Pólverjar eru málsvarar þess að Úkraína og Hvíta-Rússland hljóti sérstök kjör og síðar fulla aðild en stjórnmálaskýrendur telja það hins vegar afar ólíklegt með hliðsjón af efnahagsástandi og fyrirkomulagi mannréttinda. Engar líkur eru heldur taldar á því að landið klofni. Þó að stuðningur við hvorn frambjóðandann um sig sé áberandi meiri í ákveðnum landshlutum er ekki um algjöra skiptingu að ræða. Að auki er erfitt að sjá hverjir gætu grætt á slíkum klofningi: Úkraínumenn, frambjóðendurnir, Rússar eða Evrópusambandið. Að sama skapi er víst að óeirðir eða blóðug átök í Úkraínu gætu haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir stóran hluta gömlu Austur-Evrópu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×