Erlent

Stefnir í nýjar kosningar

Líkur á að Hæstiréttur Úkraínu úrskurði forsetakosningarnar 21. nóvember síðast liðinn ógildar jukust heldur í gær þegar Viktor Janúkovitsj forsætisráðherra fór þess á leit við dómstólinn að hann ógilti kosningarnar. Áður hafði stjórnarandstæðingurinn Viktor Júsjenkó farið þess á leit við dómstólinn. Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í gær að áður en nýjar kosningar færu fram þyrfti að breyta lögum um framkvæmd kosninga og undirbúa aðstæður fyrir endurteknar kosningar. Solana sagði jafnframt að lagaspekingar Janúkovitsj og Júsjenkó myndu hittast í dag til að ræða hugsanlegar lagabreytingar. Júsjenkó vill kjósa sem fyrst og lagði til að kosið yrði 19. desember. Þá þvertók hann fyrir að endurtaka fyrri umferð kosninganna og sagðist aðeins samþykkja að seinni umferð kosninganna, sem nú er deilt um, yrði endurtekin. Að óbreyttum lögum verður að endurtaka báðar umferðir forsetakosninganna ef kosningarnar 21. nóvember verða lýstar ógildar. Þá geta fleiri frambjóðendur bæst í slaginn og eins er rætt um að Júsjenkó dragi sig í hlé ef svo fer. Júsjenkó og Janúkovitsj ræddu saman í gær ásamt Leóníd Kúsjma, fráfarandi forseta, og erlendum milligöngumönnum. Á þeim fundi samþykkti Júsjenkó að hefja viðræður um lausn deilunnar á ný og hét því að kalla stuðningsmenn sína frá stjórnarbyggingum sem þeir hafa setið um og ekki hleypt starfsmönnum inn í. "Ég held að ríkisstjórnin sé að gefa eftir vegna þrýstings frá almenningi og vestrænum stjórnmálamönnum," sagði Júsjenkó og bætti við: "Árangur hefur náðst í skipulagningu nýrra kosninga." Úkraínska þingið samþykkt vantraust á ríkisstjórn Janúkovitsj í gær. Óvíst er þó hvaða áhrif það hefur því forsætisráðherrann neitaði að taka mark á samþykkt þingsins. Hann sagðist hvorki taka mark á niðurstöðu atkvæðagreiðslu sem færu fram undir miklum þrýstingi, né gæti hann litið svo á að farið hefði verið að þingsköpum við framkvæmdina. Kúsjma getur beitt neitunarvaldi á samþykkt þingsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×