Erlent

Fá að fylgjast með kosningunum

Stjórnvöld í Ísrael ætla að heimila alþjóðlegum eftirlitsmönnum að fara inn í Palestínu til að fylgjast með forsetakosningunum 9. janúar. Evrópusambandið tilkynnti á mánudaginn að það hygðist senda eftirlitsnefnd, sem Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakka, mun leiða, til Palestínu til að fylgjast með kosningunum. Silvan Shalom, utanríkisráðherra Ísraels, sem fundaði með Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, í gær, sagði að ísraelsk stjórnvöld myndu ekki standa í vegi fyrir því að sú nefnd eða aðrar kæmu til Palestínu. Palestínumenn hafa farið fram á að Ísraelsher dragi hersveitir sínar til baka frá palestínskum borgum þegar kosið verður og að ísraelsk stjórnvöld heimili Palestínumönnum í austurhluta Jerúsalem að kjósa. Shalom sagði að íbúar í austurhluta Jerúsalem fengju að kjósa utankjörstaðar. Hann sagðist hins vegar ekki telja að ísraelskar hersveitir sem væru við palestínskar borgir myndu hafa neikvæð áhrif á kosingarnar og því yrðu þær ekki fluttar burt. Straw lýsti yfir ánægju með jákvæð viðbrögð ísraelskra stjórnvalda vegna kosninganna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×