Erlent

Rather hættir á fréttastofu CBS

Dan Rather mun hætta störfum á fréttastofu CBS-sjónvarpsstöðvarinnar í mars. Þetta var tilkynnt í fyrradag, ríflega tveimur mánuðum eftir að vinnubrögð hans í fréttaþættinum Sextíu mínútum tvö (60 Minutes II) voru gagnrýnd harðlega. Frægðarsól Rathers hefur hnigið hratt eftir að í ljós kom að minnisblöð sem hann studdist við í umfjöllun sinni um að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefði notið sérstakra forréttinda á meðan hann gegndi herþjónustu í þjóðvarðliði Texas-ríkis, voru fölsuð. Þrátt fyrir að Rather hætti á fréttstofu CBS, þar sem hann hefur lesið fréttir undanfarna áratugi, segist hann áfram ætla að starfa sem fréttamaður fyrir Sextíu mínutur. Gil Schwartz, talsmaður CBS, segir að Rather hafi tekið þessa ákvörðun sjálfur. Hann hafi ekki verið beittur neinum þrýstingi. Sjálfstæð nefnd, sem skipuð var að frumkvæði CBS, rannsakar nú hvað olli því að fullt traust var lagt á minnisblöðin. Niðurstöðu er að vænta eftir nokkrar vikur. Howard Kurtz, virtur blaðamaður á Washington Post sem fjallar mikið um fjölmiðla, segir að líklega hafi Rather talið betra að segja af sér núna en eftir að niðurstöðurnar verða birtar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×