Erlent

Dæmdur fyrir morð á blaðamönnum

Afganskur maður úr hersveitum talíbana var í dag dæmdur til dauða fyrir að myrða fjóra blaðamenn í stríðinu árið 2001. Hann hafði einnig myrt eiginkonu sína og limlest fjölda manns. Blaðamennirnir voru tveir karlmenn frá Reuters-fréttastofunni, ein kona frá ítalska blaðinu Corriera della Sera og karlmaður frá spænska blaðinu El Mundo. Annar Reuters-mannanna var afganskur en hinn ástralskur. Morðin voru framin nítjánda nóvember árið 2001, sex dögum eftir að talíbanar höfðu verið hraktir frá Kabúl eftir miklar árásir Bandaríkjamanna. Blaðamennirnir voru að reyna að komast til Kabúl þegar bíll þeirra var stöðvaður. Talíbaninn heitir Reza Khan og er tuttugu og níu ára gamall. Auk þess að hafa myrt blaðamennina var hann sakfelldur fyrir að nauðga ítölsku blaðakonunni. Hann var einnig dæmdur fyrir að myrða eiginkonu sína og limlesta fjóra farþega í rútu sem hann stöðvaði. Hann skar nef og eyru af fjórum karlmönnum vegna þess að þeir voru ekki með alskegg, eins og leiðtogar talíbana höfðu gefið tilskipanir um. Reza Khan sagði að yfirmenn hans hefðu skipað honum að vinna þessi illvirki en dómararnir höfnuðu því sem málsvörn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×