Erlent

Lofthernaður gegn engisprettum

Ísraelar hafa enn einu sinni hafið mikinn lofthernað, en í þetta skipti gegn engisprettum, sem ráðast inn í landið í stórum hópum frá Afríku.  Mikill engisprettufaraldur hefur gengið norður eftir Afríku undanfarnar vikur. Þar hefur verið fátt um varnir því í fæstum löndum þeirrar álfu eiga yfirvöld flugvélar sem hægt er að nota til þess að berjast við pláguna. Engispretturnar hafa því valdið gífurlegu tjóni og í nokkrum Afríkuríkjum er hungursneyð yfirvofandi vegna þess að þær hafa étið nær allt ræktarland. Í gær fór svermurinn yfir Kaíró, höfuðborg Egyptalands, og dró fyrir sólu meðan þær flugu þar yfir. Nú eru kvikindin komin til Ísraels en þar eru menn ekki varnarlausir. Landbúnaðarráðuneytið hefur sent á loft heilan flugflota til þess að úða eitri yfir engispretturnar og drepa þær. Engispretturnar eru um sjö sentímetra langar og éta eigin þyngd á hverjum degi. Þar sem þær eru um tvö grömm að þyngd er það svo sem ekki mikið, en þegar það er margfaldað með milljónum og aftur milljónum lítur dæmið ekki eins vel út. Engispretturnar lifa frá tveimur mánuðum upp í sex og geta ferðast um 200 kílómetra á dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×