Menning

Nemendur komnir í gang á ný

"Krakkarnir í mínum bekk skiluðu sér allir eftir verkfallið og eru þokkalega stemmdir. Mér skilst að sumir hafi eitthvað kíkt í bækurnar en í dönskunni er sjálfsnám dálítið erfitt því þar er margt sem þarf að leiða þá í gegnum," segir Sóley Halldórsdóttir, dönskukennari í Háteigsskóla og umsjónarkennari í 10. bekk. Hún segir suma nemendur hafa nýtt verkfallið til ferðalaga, meðal annars heimsókna til frændfólks á landsbyggðinni. "Annars held ég að mikið hafi verið horft á spólur og mikið sofið út," bætir hún við. Sóley segir nemendur sína vissulega áhyggjufulla vegna samræmdu prófanna enda séu þeir að fara að útskrifast í vor og færa sig yfir í framhaldsskólana. Sjálf hefur hún áhyggjur af unga fólkinu en líka af ástandinu í kennaradeilunni. "Það er ekkert gott hljóð í fólki enda er þetta tilboð sem komið er fram hrein móðgun við kennarastéttina. Það eru komnar fram launatöflur sem maður getur mátað sjálfan sig við og þetta er bara grín. Þó að kennslan sé hugsjónastarf að nokkru leyti þá þurfa kennarar að fá greitt í samræmi við nám og vinnuframlag." Sóley segir líta út fyrir að miðlunartillagan verði felld og horfir því jafnvel fram á verkfall aftur strax í næstu viku. "Það verður eitthvað meira að koma frá samningsaðilum til að þessi mál leysist," segir hún og röddin lýsir einbeitni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.