Erlent

Siðferðismál réðu miklu um úrslit

Áhersla George W. Bush á siðferðismál og baráttuna gegn hryðjuverkum virðist hafa átt stóran hlut í því að tryggja honum endurkjör sem forseti Bandaríkjanna. Þrátt fyrir að fólk lýsti mikilli óánægju með stöðu efnahagsmála og að Íraksstríðið væri afar umdeilt gefa skoðanakannanir á kjördag til kynna að fólk hafi sett siðferðismál hvað mest á oddinn. 22 prósent kjósenda litu á siðferðismál sem mikilvægasta mál kosninganna samkvæmt útgönguspám og kom það sérfræðingum mjög á óvart. Þessir kjósendur litu vart við John Kerry, 79 prósent þeirra kusu Bush en aðeins 18 prósent Kerry. Þetta endurspeglaðist að hluta í úrslitunum í Ohio, en sigur Bush þar réði úrslitum um að hann en ekki John Kerry verður forseti Bandaríkjanna næstu fjögur árin. Samkvæmt könnun AP lítur fjórði hver kjósandi í ríkinu svo á að hann hafi frelsast, en þetta trúaða fólk kaus Bush með miklum yfirburðum. Þrefalt fleiri greiddu honum atkvæði en Kerry í ríki þar sem aðeins munaði tveimur prósentustigum þegar upp var staðið. George W. Bush vann kosningarnar með nokkrum mun. Hann fékk 51 prósent atkvæða en Kerry 48 prósent og fékk fleiri kjörmenn nú en fyrir fjórum árum. Þetta kom á óvart í ljósi skoðanakannana sem sýndu ekki marktækan mun á frambjóðendunum og útgönguspár á kjördag sem gaf til kynna að John Kerry væri í sókn og líklegur til að vinna í þremur stærstu óvissuríkjunum; Flórída, Ohio og Pennsylvaníu. Þegar upp var staðið vann hann aðeins í einu þeirra, Pennsylvaníu, sem Al Gore vann fyrir fjórum árum. Þrátt fyrir að Bush ynni þegar upp var staðið öruggari sigur en búist hafði verið við leið drjúgur tími áður en úrslitin voru endanlega ljós. Mikill fjöldi utankjörfundaratkvæða og vafaatkvæða í Ohio varð til þess að demókratar gerðu sér vonir fram yfir hádegi í gær að íslenskum tíma um að vinna í Ohio og þar með forsetakosningarnar. Þegar betur skýrðist um hversu mörg atkvæði var að ræða sáu þeir hins vegar að baráttunni væri lokið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×