Erlent

Pyntingar staðreynd við Guantanamo

Pyntingar á föngum viðgangast í fangelsi Bandaríkjastjórnar við Guantanamo-flóa og aðstæður þar eru hryllilegar segir rannsóknarblaðamaðurinn David Rose sem skrifað hefur bók um málið. Alþjóða Rauði krossinn tekur undir ásakanir hans í trúnaðarskýrslu til Bandaríkjastjórnar.  Í bandarísku herstöðinni við Guantanamo hafa um 500 fangar setið í haldi án dóms og laga í tæp þrjú ár. Ýmist voru þeir handteknir í Afganistan eftir 11. september eða síðar grunaðir um tengsl við al-Kaída. Alþjóða Rauði krossinn heldur því fram í trúnaðarskýrslu til Bandaríkjastjórnar að fangarnir séu pyntaðir. Fjallað er um skýrsluna í New York Times í dag. Blaðamaðurinn David Rose heimsótti fangabúðirnar á síðasta ári og ræddi við fangaverði og aðra starfsmenn. Hann tók viðtöl við fyrrverandi fanga og fólk í bandaríska stjórnkerfinu. Afraksturinn er bókin Guantanamo. Rose segir fangana pyntaða við yfirheyrslur, þeim sé t.d. haldið á köldum stöðum, bundnir í mjög óþægilegum stellingum, neyddir til að hægja sér í eigin föt og meinað að sofa. Svona gangi þetta mánuðum saman. „Það mikilvægasta í sambandi við Guantanamo er að þetta er ekki aðeins siðlaust og ólöglegt samkvæmt bandarískum og alþjóðlegum lögum heldur virkar þetta ekki. Engar nothæfar upplýsingar hafa komið fram því það eru rangir menn þarna,“ segir Rose og hefur það m.a. eftir háttsettum bandarískum njósnaforingjum. Höfundurinn segir flesta fanganna hafa verið selda til Bandaríkjamanna af mannaveiðurum en ekki handteknir á vígvellinum eins og Bandaríkjamenn haldi fram. Hann segir mannaveiðaranna fá um fimm þúsund dali fyrir hvern fanga. Yfirheyrslurnar skili hins vegar engum árangri því fæstir mannanna viti nokkuð um hryðjuverkastarfsemi. Spurður hvers vegna hann telji að svona sé komið segist Rose halda að Guantanamo sé tilraun sem Bandaríkjamenn geri til að sjá hvað þeir komist upp með, hve mikil lögbrot þeir geti framið án þess að bandaríska og alþjóðlega samfélagið bregðist við, auk þess sem þetta sé afleiðing undarlegrar, kristilegrar valdboðshneigðar í Bandaríkjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×