Erlent

Leitartól ógnar gagnaöryggi

Leitartól sem vefleitarvélin Google býður fólki að nota við gagnaleit á tölvum sínum er talin draga úr gagnaöryggi. Hægt er að hlaða niður litlu forriti á vef Google sem leitar að skjölum á tölvum notenda og heldur skrá yfir skjölin og innihald þeirra á vísum stað á harða drifinu. Meðal skjala sem forritið skráir eru svokallaðar "öruggar vefsíður" sem byrja á https, en þær kunna meðal annars að innihalda upplýsingar um aðgangsorð, bankareikninga og greiðslukortanúmer. Á vef tímaritsins PC World í Bandaríkjunum varar Stephen Green, einn yfirmanna Advanced Search Technologies Group hjá Sun Microsystems, við notkun leitarforritsins. "Það er bara tímaspursmál þar til búið verður til njósnaforrit eða tölvuormur sem laumast í yfirlitsskrá Google á tölvum fólks og sendir áfram á vef einhvers staðar," segir hann. Undir þetta sjónarmið taka fleiri sérfræðingar á sviði gagnaöryggis, en yfirlitsskráin er ekki dulkóðuð á nokkurn hátt. Fram kemur í fréttinni að Google hefur ekki svarað fyrirspurnum blaðsins um málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×