Erlent

Árás á vopnageymslu

Bandarískir hermenn gerðu sína þriðju árás á borgina Falluja í Írak á einum sólarhring snemma í gær. Sprengdu þeir meðal annars upp byggingu sem þeir sögðu að væri notuð af uppreisnarsinnum sem vopnageymsla. Talið er að allt að fimmtán grunaðir skæruliðar hafi verið að flytja vopn og skotfæri í bygginguna þegar árásin var gerð. Fórust þeir að öllum líkindum allir. Bandaríkjaher með hjálp Írakshers hefur náð valdi á borginni Samarra, sem er 95 km frá Bagdad, eftir margra daga baráttu við skæruliða. Stefna stjórnvalda beggja landa er að yfirbuga skæruliða í sem flestum borgum Íraks áður en kosningar fara þar fram í janúar. Háværar óánægjuraddir hafa heyrst vegna mikils mannfalls í Samarra. Af þeim 70 sem hafa látist, eru 23 börn og 18 konur. Að auki hafa um 160 manns særst. "Fólkið sem hefur meiðst er aðallega venjulegt fólk sem tekur engan þátt í þessum átökum," sagði Abdel Latif, íbúi borgarinnar, vonsvikinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×