Innlent

Áfram krakkar, farið að læra!

Samræmdum prófum í 10. bekk í vor verður frestað um eina viku samkvæmt ákvörðun menntamálaráðuneytis. „Áfram krakkar, farið að læra“ eru skilaboð formanns fræðsluráðs Reykjavíkur til skólabarna. Nemendur 10. bekkjar standa frammi fyrir samræmdum prófum í vor, að vanda, þar sem frammistaða þeirra hefur áhrif á möguleika til framhaldsnáms. Vegna verkfalls grunnskólakennara lá kennsla niðri í tæpa tvo mánuði og vegna þeirrar röskunar hefur menntamálaráðuneytið ákveðið að hnika prófunum til. Einungis er um að ræða vikufrestun frá upphaflegum dagsetningum og eins hefur röðum prófanna verið breytt. Fyrsta prófið af sex verður samræmt próf í íslensku sem fram fer 9. maí. Þær upplýsingar fengust hjá menntamálaráðuneytinu að það sé í samstarfi við sveitarfélögin um að finna leiðir til að bæta nemendum upp það kennslutap sem orðið hefur. Sveitarfélögin munu hafa mismunandi hugmyndir um slíkt en ljóst er að tapið verður ekki bætt að fullu. Lögum samkvæmt er það hlutverk sveitarfélagann að endurskipuleggja skólastarfið í heild. Í dag fundaði fræðsluráð Reykjavíkur vegna þessa með aðalherslu á nám barna í 10. bekk. Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, segir að settur verði saman samráðshópur kennara, foreldra, skólastjóra og ráðsins til þess að koma með tillögur um þessi mál á næstu dögum. „Ég vil bara senda þau merki út: Áfram krakkar, farið að læra.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×