Erlent

Ætlaði að drepa dreng úti á götu

Maður undir áhrifum eiturlyfja hélt hnífi að hálsi níu ára drengs í fjórar klukkustundir í Bangkok, höfuðborg Taílands, í dag. Maðurinn, sem er fjörutíu og fimm ára gamall byggingaverkamaður, virtist skyndilega missa stjórn á sér, greip níu ára dreng sem var á leið heim úr skólanum og hélt stórum, hárbeittum hníf að hálsi hans. Maðurinn gerði engar aðrar kröfur en þær að fá bíl sem flytti hann að rútustöð í höfuðborginni. Lögreglan reyndi að tala manninn til, og bæði dekstra og hóta, til þess að fá hann til að sleppa drengnum en allt kom fyrir ekki. Hann ruglaði bara tóma vitleysu og ráfaði fram og aftur, dragandi drenginn með sér. Þetta þóf tók fjórar klukkustundir og drengurinn virtist hreint ótrúlega rólegur meðan á þessu stóð. Að lokum ákváðu lögreglumennirnir að þetta gengi ekki lengur og sættu færis til þess að skjóta gúmmíkúlum í hnífamanninn. Honum brá svo illa að hann sleppti drengnum, sem gat forðað sér. Það reyndi hnífamaðurinn einnig en var sparkaður niður og handtekinn. Lögreglumennirnir áttu þó í mesta basli við að bjarga honum frá reiðum vegfarendum sem lömdu hann og börðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×