Erlent

Karzai sór embættiseið

Fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Afganistans sór embættiseið í dag. Forsetinn, Hamid Karzai, sór íslam hollustu að viðstöddum varaforseta Bandaríkjanna og miklum fjölda erlendra gesta. Það var að vonum mikil öryggisgæsla þegar Karzai sór embættiseiðinn, sá fyrsti sem kjörinn er lýðræðislegri kosningu. Vel á annað hundrað erlendir sendimenn voru viðstaddir embættistökuna. Þeirra á meðal voru Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra. Segja má að þessir tveir menn eigi mestan þátt í því að Karzai tók við embætti í dag. Að athöfninni lokinni þakkaði forsetinn Bandaríkjunum fyrir hjálpina sem þau hefðu veitt við að losa Afganistan undan oki talíbana. Hann lagði áherslu á að þótt stjórn talíbana hafi verið steypt af stóli væru ennþá einstaklingar sem stunduðu hryðjuverk og þeim yrði að koma fyrir kattarnef. Varaforseti Bandaríkjanna var einnig glaður í bragði. Hann sagði harðstjórnina vera farna, hryðjuverkamennina hafa tvístrast og að afganska þjóðin væri þar með frjáls. Karzai lagði áherslu á að þetta væri aðeins fyrsta litla skrefið á langri leið við að endurreisa Afganistan og gera það að fullgildum meðlimi í samfélagi þjóðanna. Afgana biði risavaxið verkefni sem þeir gætu aðeins tekist á við ef þeir tækju höndum saman, í friði, og létu gamlar væringar heyra sögunni til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×