Erlent

Samstarf gegn hryðjuverkum

Mikið hefur verið fjallað um aukið samstarf ríkja gegn hryðjuverkum á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem nú fer fram. Lagt hefur verið til að auka upplýsingaflæði á milli aðildarríkja bandalagsins og samstarfsríkja til að sporna við alþjóðlegum hryðjuverkum. Á fundinum, sem fram fer í Istanbúl í Tyrklandi, lýstu leiðtogar Atlantshafsbandalagsins yfir sérstakri ánægju með stækkun bandalagsins og buðu leiðtoga sjö nýrra aðildarríkja velkomna. Samþykkt var á fundinum að verða við ósk stjórnvalda í Afganistan um aukna öryggisgæslu í landinu til að tryggja framkvæmd kosninga síðar á árinu. Leiðtogarnir lýstu einnig yfir fullum stuðningi við ný stjórnvöld í Írak og samþykktu að verða við beiðni þeirra um aðstoð við þjálfun öryggissveita og hers. Í málefnum Balkan-skaga var samþykkt að ljúka friðargæslu Atlantshafsbandalagsins í Bosníu-Hersegóvínu en Evrópusambandið tekur við friðargæslu þar frá og með haustinu. Í tengslum við baráttuna gegn alþjóðlegum hryðjuverkum var einnig ákveðið að Úkraína og Rússland skyldu taka þátt í eftirlitsaðgerðum á Miðjarðarhafi. Þá var ákveðið að efla samstarf Atlantshafsbandalagsins við miðjarðarhafslönd sem einnig eigi að ná til þeirra ríkja sem ekki hafa áður tekið þátt í samstarfi á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×