Erlent

Ráða Moore og Clinton úrslitum?

Vegna heimildarmyndarinnar "Fahrenheit 9/11", þar sem Michael Moore gagnrýnir George W. Bush harkalega og ævisögu Bill Clinton, sem er efst á metsölulistum í Bandaríkjunum, hefur nú sprottið upp mikil umræða þar í landi um það hvort poppmenning geti haft áhrif á forsetaskosningarnar í haust. Dagblaðið The Washington Post segir að vangaveltur um áhrif poppmenningar á kosningar í Bandaríkjunum hafi byrjað árið 1948 þegar repúblikaninn Thomas E. Dewey atti kappi við Harry S. Truman í forsetakosningum. Þá hófu Hollywood-framleiðendur að sýna fréttir eða kosningaáróður Dewey á undan kvikmyndum sínum. Truman hótaði þeim og krafðist þess að fá einnig sýndar "fréttir" af sjálfum sér. Það gekk eftir og Truman sigraði naumlega í kosningunum. Eftir kosningarnar sögðu kjósendur að áróður Dewey hefði verið áhrifameiri. Hallar á Bush Nú hefur umræða um þessi mál aftur vaknað. Bæði heimildarmynd Moore og ævisaga Clintons, sem ber heitið "My Life", hafa fengið ítarlega umfjöllun í fjölmiðlum. Er það samdóma álit þeirra fræðimanna sem Washington Post ræddi við að sjaldan ef þá nokkurn tímann í sögu Bandaríkjanna hafi jafn gagnrýnni mynd og bók verið sýnd jafnmikill áhugi. Telja þeir að umfjöllun fjölmiðla um málið hafi verið það mikil undanfarnar vikur að kosningaskrifstofur forsetaframbjóðendanna hafi ekki getað komið sínum málum á dagskrá fjölmiðlanna. Kosningastjórar Bush og Kerry viðurkenna þetta en telja hins vegar báðir að þessi umræða muni líða hjá áður en langt um líður. Það fer ekki á milli mála að það hefur hallað heldur á Bush í umræðunni. Mynd Moore er einhver sú harðasta ádeila sem nokkur forseti hefur staðið frammi fyrir. Ekki nóg með að myndin hafi að geyma harða gagnrýni heldur var hún vinsælasta mynd kvikmyndahúsanna fyrstu fimm dagana eftir að hún var frumsýnd í Bandaríkjunum. Að heimildarmynd skapi sér slíkar vinsældir á sér engin fordæmi vestanhafs. Þegar sagan er skoðuð kemur í ljós að aðeins einu sinni hefur álíka staða komið upp. Það var árið 1983 þegar geimfarinn John Glenn bauð sig fram sem forsetaefni demókrata á sama tíma og myndin "The Right Stuff" var frumsýnd. Þó myndin sýni Glenn sem hetju þá var hún á engan hátt sambærileg við Fahrenheit 9/11 - hún innihélt ekki pólitískan áróður. Svo fór reyndar að Glenn tapaði illa í forkosningunum fyrir Walter F. Mondale. Á sér engin fordæmi Líkt og mynd Moore á ævisaga Clintons sér ekki nein fordæmi hvað snertir umfjöllun og kannski helst tímasetningu útgáfunnar. Eftir sex daga í sölu var búið að selja tæplega milljón eintök af bókinni og hún orðin söluhæsta bókin í Bandaríkjunum. Bent hefur verið á að John F. Kennedy hafi gefið út ævisöguna "Profiles in Courage" áður en hann sigraði Richard M. Nixon. Kennedy gaf bókina hins vegar út fjórum árum áður en hann sigraði. Sömu sögu er að segja af bók Barry Goldwater "Conscience of a Conservative." Hún kom út fjórum árum áður en hann bauð sig fram til forseta árið 1964. Auk bókar Clintons og heimildarmyndar Moore hefur fjöldi annarra pólitískra verka komið út undanfarna mánuði. Skemmst er að minnast endurminninga Richard Clarke, fyrrum öryggisráðgjafa, um árin í Hvíta húsinu. Í bókinni gagnrýnir Clarke forsetann meðal annars fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir árásirnar 11. september. Í bókinni sakar hann ríkisstjórn Bush um að hafa hunsað hryðjuverkaógnir fram til árásanna. Í september verður ný mynd eftir leikstjórann John Sayles frumsýnd. Myndin, sem er byggð á skáldskap, mun fjalla um spilltan, illa máli farinn stjórnmálamann, sem býður sig fram til ríkisstjóra. Engum dylst að hér er á ferðinni ádeila á George W. Bush. Til eru þeir sem telja að þessar bækur og myndir muni hafa áhrif á kosningarnar en svo eru aðrir sem segja að áhrifamáttur poppmenningarinnar sé ekki það mikill. Mandy Grunwald, sem vann fyrir Bill Clinton fyrir kosningarnar 1992, segir að poppmenningin eigi sér djúpar rætur í þjóðarsálinni og það megi ekki vanmeta hana. Hún segir að fyrir bandarísku þingkosningarnar árið 1994 hafi spjótin staðið gegn Clinton. Útvarpsþættir og bækur þar sem hann hafi verið gagnrýndur hafi verið mjög vinsælar á þessum tíma. Repúblikanar hafi síðan unnið stórsigur í kosningunum. "Poppmenningin endurspeglaði einfaldlega þjóðarandann á þeim tíma," segir Grunwald. "Nú hefur þetta snúist við - tíðarandinn er greinilega breyttur." Bush-liðar forðast umræðuna Kosningastjórar Bush forseta segjast meðvitað hafa reynt að standa utan við alla umræðu um "Fahrenheit" og "My Life" til að forðast að blása málið frekar upp. Einn talsmanna Bush segist ekki hafa trú á því að vinsældir myndarinnar og bókarinnar muni hafa slæmar afleiðingar fyrir Bush. Þeir sem fari að sjá myndina og þeir sem lesi bókina séu flestir þegar stuðningsmenn Kerry. Þó að þeir sem standi næst Bush hafi reynt að forðast opinbera umræðu um myndina og bókina er ekki sömu sögu að segja af ýmsum íhaldssömum samtökum. Samtökin "Move America Forward" hafa meðal annars biðlað til fólks um að hunsa mynd Moore og þrýst á kvikmyndahús að sýna hana ekki. Barátta samtakanna hefur litlu skilað. Önnur samtök, sem bera heitið Citizen United, hafa gengið skrefinu lengra. Þau segja að sjónvarpsauglýsingar fyrir myndina brjóti í bága við lög sem banna einstaklingum að birta auglýsingar sem eru áróður fyrir frambjóðanda í kosningum. Afar ólíklegt þykir að auglýsingarnar brjóti í bága við þessi lög en málið hefur þó ekki verið til lykta leitt enda á Kerry eftir að taka formlega við útnefningu sem forsetaefni demókrata. Það kemur ekki á óvart að kosningastjórar Bush hafi forðast alla umræðu um myndina og bókina. Það hefur hins vegar komið nokkuð á óvart að kosningastjórar Kerry hafa jafnvel tjáð sig enn minna um málið. Margir bjuggust við því að Kerry myndi nýta sér gagnrýnina á Bush í baráttu sinni. Íhaldið með yfirburði Það er erfitt að sanna að einhver bók eða mynd hafi áhrif á kosningahegðun þeirra sem ekki hafa ákveðið hvað þeir ætla að kjósa. Fræðimenn segja flókið að greina það hvernig fólk myndi sér skoðanir. Margar breytur hafi áhrif á það ferli. Skilaboð sem komi fram í einni ákveðinni bók eða mynd þurfi að vera síendurtekin ef þau eigi að hafa raunveruleg áhrif á fólk. Myndin "The Day After" sem fjallaði um ástandið í heiminum eftir kjarnorkustyrjöld vakti upp miklar umræður í Bandaríkjunum eftir að hún var sýnd í sjónvarpi. Kjarnorkuandstæðingar notuðu myndina sem rök í herferð sinni gegn kjarnorkuvánni og fjallað var um myndina í fjölda umræðuþátta í sjónvarpi og útvarpi. S. Robert Lichter, forseti Rannsóknarmiðstöðvar opinberrar stjórnsýslu og fjölmiðla, segir að rannsóknir sem gerðar hafi verið fyrir og eftir að myndin var sýnd sýni að hún hafi haft lítil áhrif á skoðanir almennings um kjarnorkumál. "Einn atburður breytir ekki skoðunum fólks," segir Lichter. "Sérstaklega ekki atburður sem gerist nokkrum mánuðum fyrir kosningar." Kathleen Hall Jamieson, yfirmaður Rannsóknarstofnunar í opinberri stjórnsýslu í Annenberg, segir að vissulega sé það merkilegt að milljónir manna hafi farið og séð mynd Moore, sem er gríðarlega gagnrýnin á störf Bush. Hvort einhver hafi skipt um skoðun eftir að hafa horft á myndina sé hinsvegar spurning sem erfitt sé að svara. Það verði hins vegar einnig á líta á þá staðreynd að vinsælustu útvarpsþáttum Bandaríkjanna sé stjórnað af íhaldsmönnum eins og Rush Limbaugh, Sean Hannity og Lauru Ingraham. Kathleen Hall segir hægrimenn því hafa talsverða yfirburði í pólitískum fjölmiðlaáróðri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×