Menning

Gott að geta séð fyrir sér

Lára Björk Bragadóttir er 16 ára og vinnur sem gæslumaður við smíðavöll á Seltjarnarnesi í sumar. Þetta er þriðja sumarið sem hún vinnur fyrir sér og síðastliðinn vetur byrjaði hún einnig að vinna með námi við afgreiðslustörf í Hagkaupum. "Ég var mjög heppin að fá vinnu þar í vetur því vanalega taka þeir ekki svona ungt fólk í vinnu. Mér finnst rosalega gaman að eiga pening til að kaupa mér föt og svoleiðis og finnst þannig gott að vera aðeins byrjuð að sjá fyrir mér sjálf," segir hún. Lára Björk hefur nám við Menntaskólann í Reykjavík í haust og ætlar þá jafnframt að vinna í Hagkaupum með skólanum. "Ég þekki mjög marga á mínum aldri sem eru að vinna í sumar og eru flestir þeirra að vinna í unglingavinnunni. Svo þekki ég nokkra krakka úr Reykjavík sem fara út á land á sumrin til að vinna á hótelum," segir hún. Margir af þeim sem Lára Björk þekkir leggja sumarhýruna fyrir eða allavega hluta af henni. "Ég þekki nokkra sem leggja fyrir hluta af peningnum sem þeir vinna sér inn yfir sumarið inn á svona lokaðan reikning í bankanum og láta summuna ávaxta sig. Þá eru þeir annaðhvort að safna sér fyrir einhverju ákveðnu eða þá að safna sér fyrir háskólanámi sem þeir ætla sér að stunda í framtíðinni. Lára Björk segist ekki vera byrjuð að leggja fyrir en ætli sér að bæta úr því. "Ég er í ágætlega vel launaðri vinnu og stefni á háskólanám þannig að ég þarf að fara að huga að þessu fljótlega," segir hún.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.