Menning

Of mikið af hinu góða

Getur maður gert of mikið af hinu góða? Ég fór að velta þessu fyrir mér og niðurstaða mín er sú að það fer eftir því hvað maður kallar hið góða. Ég veit um marga sem tala um "hið ljúfa líf" og eiga þá við áfengisdrykkju, stórar steikur, vindlareykingar og annað í þeim dúr. En það kallast frekar auðvelt en gott og ef það er gott er svo sannarlega hægt að gera of mikið af hinu góða. Sjálfum finnst mér gott að fá eitt og eitt súkkulaðistykki en ég veit að of mörg valda mér magaverkjum og jafnvel timburmönnum daginn eftir. Hið góða getur því vart tengst neyslu, því of mikil neysla endar yfirleitt með þjáningum. En hvað með bænir og hugleiðslu? Ég veit ekki til þess að sönn hugleiðsla hafi leitt annað en gott af sér. Samkennd, fyrirgefning og almenn gæska eru eiginleikar sem hægt er að rækta og þeir eru alltaf af hinu góða. Varla fer nokkur maður að telja annan af því að rækta með sér kærleika. Spurningin um hið góða er því alltaf huglæg og ekki er hægt að svara henni nema að meta aðstæður hverju sinni. Til þess að komast að niðurstöðu er gott að hugsa fram í tímann og meta langtímaafleiðingar. Hið góða skilar sér yfirleitt í hamingju og hófsömu lífi. Hið auðvelda skilar sér hins vegar í skammtímaánægju en til lengri tíma skapar það erfiðleika og þjáningar. Í þeim skilningi er varla hægt að gera of mikið af hinu góða eða hvað...? gbergmann@gbergmann.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×