Menning

Skemmtilegt að borða Sushi

Sigríður Guðmarsdóttir prestur er nýkomin heim eftir fjögurra ára búsetu í Bandaríkjunum. Hún er ánægð með að vera komin heim en saknar þó eins. "Það sem mér finnst skemmtilegast að borða er sushi með soja, grænu wasabi og appelsínugulri engiferrót Það er matur sem ég verð aldrei leið á og get troðið mig út af því en verð samt aldrei óþægilega södd. Mér hefur alltaf þótt gott að borða að borða fisk og grjónagraut og í sushi fæ ég þetta hvortveggja í sama mál. Mér finnst það líka svo fallegur matur og svo er svo ofsalega gaman að borða með prjónum." Sigríður man alveg hvenær hún smakkaði sushi fyrst. "Það var fyrir fjórum árum þegar ég flutti til Bandaríkjanna. Ég sá mann af asískum uppruna sem var að búa til eitthvað sem leit út eins og rúlluterta nema þegar betur var að gáð var hún úr hrísgjónum og þangi. Ég ákvað að prófa og hefði aldrei trúað því að það væri svona gott að borða hráan fisk. Ég hef aldrei prófað að gera sushi sjálf en ef ég finn ekki sushi-veitingastað á Íslandi fljótlega þá verð ég að læra það. Ég hef heyrt af nokkrum stöðum en ekki séð þetta í búðunum hér. Ég held að það hljóti að vera hægt að koma Íslendingum upp á að borða hráan fisk." Sigríður hefur í mörgu að snúast þessa dagana því hún er að taka við starfi sóknarprests í nýrri sókn í Grafarholti. "Ég er farin að vinna sem sóknarprestur og aðeins byrjuð að skíra svo starfið er allt að fara í gang. Ég verð svo sett inn í embætti á sunnudaginn og þá hefst starfið mitt hér svona formlega. Þannig að ég er mjög ánægð með að vera komin heim og ef ég finn góðan sushi-stað þá er lífið fullkomið," segir Sigríður og hlær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×