Erlent

Á brattann að sækja fyrir Kerry

Ef draga má lærdóm af forsetakosningunum fyrir átta og tólf árum er demókratinn John Kerry búinn að tapa forsetakosningunum fyrir George W. Bush Bandaríkjaforseta. Bandaríkjamenn horfa mjög til stuðnings við forsetaframbjóðendur á Labour Day sem kalla má nokkurs konar frídag verslunarmanna vestanhafs, síðasta stóra frídag sumarsins. Sérfræðingar í kosningafræðum segja að eftir þann tímapunkt sé mjög erfitt að fá þrjá af hverjum fjórum væntanlegum kjósendum til að skipta um skoðun á því hvern þeir telji æskilegasta forsetann. Fyrir átta árum hafði Bill Clinton, þá sitjandi forseti, drjúgt forskot á Bob Dole, frambjóðanda repúblikana. Sama hvað Dole reyndi eftir þetta tókst honum aldrei að vinna upp fylgismuninn. Svipaða sögu er að segja af baráttu Clintons og George Bush eldri. Clinton náði forskoti fyrir Labour Day og lét það ekki af hendi. Það mætti jafnvel líta til kosningabaráttunnar fyrir fjórum árum. Þá voru George W. Bush og Al Gore hnífjafnir á Labour Day og litlu munaði á þeim þegar upp var staðið. Hins vegar sýndu skoðanakannanir í millitíðinni gífurlegar sveiflur. Gore mældist tvisvar með tíu prósenta forskot, Bush sömuleiðis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×