Innlent

BUGL sækir um undanþágu

Um tíu undanþágubeiðnir vegna yfirstandandi kennaraverkfalls höfðu borist svokallaðri undanþágunefnd í gær, að sögn Þórörnu Jónasdóttur fulltrúa Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands í nefndinni. Þórarna sagðist ekki vita með vissu hve margar beiðnir um undanþágu hefðu borist nefndinnni en þær væru eitthvað um tíu talsins. Ekki hefði borist tilkynning frá Sambandi sveitarfélaga um hver væri þeirra fulltrúi í nefndinni, þannig að beiðnirnar höfðu enn ekki verið teknar til afgreiðslu. "Það hefur verið beðið um undanþágur, bæði fyrir einstaklinga og svo heilan skóla," sagði Þórarna, sem kvaðst ekki vilja gefa upp um hvaða skóla væri að ræða. Hún sagði að í verkfallinu 1995 hefði einn hópur fatlaðra fengið undanþágu, það er einhverf skólabörn. Fréttablaðið fékk staðfest hjá Ólafi Guðmundssyni, yfirlækni á Barna- og unglingageðdeildinni á Dalbraut, að hann hefði fyrir helgi sent inn undanþágubeiðni vegna þeirra nemenda sem dvelja á BUGL og fá kennslu frá Brúarskóla. Það mun vera skólinn sem um ræðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×