Innlent

Aðal­steinn leiðir samráðshóp um öryggis- og varnar­mál

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aðalsteinn Leifsson fer fyrir hópnum.
Aðalsteinn Leifsson fer fyrir hópnum. Vísir/Arnar

Utanríkisráðherra hefur skipað nýjan samráðshóp þingmanna sem á að leggja grunn að öryggis- og varnarstefnu Íslands. Aðalsteinn Leifsson, varaþingmaður Viðreisnar og aðstoðarmaður ráðherra, hefur verið fenginn til að leiða hópinn.

Í hópnum eru fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi; Dagur B. Eggertsson (Samfylking), Ingibjörg Davíðsdóttir (Miðflokkur), Pawel Bartoszek (Viðreisn), Sigurður Helgi Pálmason (Flokkur fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsókn) og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (Sjálfstæðisflokkur).

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að verkefni hópsins sé að móta heildstæða stefnu í öryggis- og varnarmálum, en slík stefna hafi aldrei áður verið sett fram með formlegum hætti hér á landi. 

„Áhersla verður lögð á að greina helstu öryggisáskoranir, skilgreina markmið Íslands í alþjóðlegu öryggissamstarfi og leggja mat á hvaða viðbúnað og getu þurfi að tryggja innanlands. Einnig verður horft til mögulegra breytinga á lagaumgjörð varnarmála,“ segir í tilkynningu.

Utanríkisráðuneytið fer fyrir vinnunni í samvinnu við dómsmálaráðuneytið og aðrar viðeigandi stofnanir. Ráðgert er að leita álits sérfræðinga og hafa víðtækt samráð innanlands og utan. Hópnum er ætlað að ljúka störfum fyrir 21. maí 2025.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×