Erlent

Danskir ráðamenn réttmætt skotmark

Danski forsætisráðherrann, varnarmálaráðherrann og danskir hermenn í Írak eru réttmæt skotmörk hryðjuverkamanna. Þetta sagði danskur múslimi sem var fyrr á árinu leystur úr haldi Bandaríkjamanna sem héldu honum föngnum í Guantanamo. Slimane Hadj Abderrahmane var handtekinn í Pakistan í febrúar 2002 og sendur til fangavistar og yfirheyrslu í herstöð Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu vegna hugsanlegra tengsla við al-Kaída og Talibanana sem stjórnuðu Afganistan fyrir innrás Bandaríkjanna. Sjálfur segist hann hafa verið í þjálfunarbúðum til undirbúnings því að berjast gegn Rússum með trúbræðrum sínum í Tsjetsjeníu. Það geti hann ekki gert nú því ein forsendan fyrir lausn hans frá Guantanamo var að hann hét því að beita ekki ofbeldi. Ummæli hans í dönskum fjölmiðlum um réttmæti árása á danska ráðamenn og hermenn í Írak vegna stuðnings Dana við innrásina í Írak hafa valdið miklu fjaðrafoki í Danmörku. Abderrahmane sagði í tveimur sjónvarpsviðtölum að þegar land ætti í stríði við múslima ættu leiðtogar landsins á hættu að verða skotmörk. Fréttamaður DR-2 sjónvarpsstöðvarinnar spurði hvort þetta þýddi að forsætisráðherrann og varnarmálaráðherrann væru réttmæt skotmörk. "Já, þeir geta verið það," svaraði Abderrahmane. "Ég get verið ósammála forsætisráðherranum, en enginn ætti að gefa í skyn að líf hans væri í hættu eða að drepa ætti danska hermenn," sagði sósíalistinn Anne Bastrup og sagði orð Abderrahmane óbeina viðurkenningu á beitingu ofbeldis. Peter Skaarup, þingmaður Þjóðarflokksins, gekk skrefinu lengra og hvatti dómsmálaráðuneytið til að athuga hvort Abderrahmane hefði gengið of langt í orðum sínum. Sjálfur réttmætti Abderrahmane orð sín með því að hann gæti ekki þagað þunnu hljóði. "Ég get ekki setið hjá aðgerðalaus meðan hermenn bandalagsþjóðanna ráðast á konur og börn í Írak." Danir studdu innrásina í Írak og hafa að auki sent herlið til landsins. Foringi í hernum hefur verið sakaður um að misþyrma íröskum föngum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×