Erlent

Allt getur gerst

Allt getur gerst þó að kannanir vestan hafs gefi til kynna að George Bush hafi töluvert forskot á John Kerry í kapphlaupinu um Hvíta húsið. Aðeins þrjú málefni skipta sköpum í baráttunni, að sögn bandarísks sérfræðings í skoðanakönnunum. Í kvöld mætast þeir George W. Bush og John Kerry í fyrstu kappræðunum af þremur sem fara fram á næstu vikum. Skoðanakannanir benda eindregið til þess að Bush hafi töluvert forskot og vaxi ásmeginn, en að John Kerry sé í vanda staddur - munurinn er í sumum könnunum allt að tíu prósent. Þó er allt að fjórðungur kjósenda óákveðinn eða reiðubúinn að skipta um skoðun, að mati Karlyn Bowman hjá American Enterprise Institute í Washington. Hún segir enn langt til kosninganna og að vika sé heil eilífð í bandarískum stjórnmálum. Að sögn Karlyn getur margt breyst á lokasprettinum.  Karlyn segir að tölurnar sýni að Kerry hafi verið með mjög gott flokksþing en Bush með betra flokksþing. Hún segir aðeins þrjú mál vera á oddinum í þessari kosningabaráttu sem sé óvenjulegt því yfirleitt séu helstu málin fjögur til sex. „Þjóðin hefur miklar áhyggjur af efnahagsmálunum, stríðinu í Írak og stríðinu gegn hryðjuverkum. Þetta eru einu  málin sem tekist er á um í kosningabaráttunni,“ segir Karlyn.  Að mati Karlyn getur ýmislegt gerst í kappræðunum í kvöld. Bæði hafa þær áhrif á óákveðna og frambjóðendunum má ekki verða á í messunni; slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar eins og hjá Al Gore í síðustu kosningum. „Hann andvarpaði í sífellu eins og honum leiddist svör George Bush og einu sinni fór hann alveg upp að forsetanum á mjög furðulegan hátt. Fólk varð afhuga vegna framkomu hans,“ segir Karlyn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×