Viðskipti innlent

Fyrsta skrefið í greiningu

Í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ um kostnaðargreiningu á heilbrigðisþjónustu kemur fram að kostnaður við komu sjúklinga á heilsugæslu er lægri en kostnaður við komu til sérgreinalækna. Að mati Axels Hall, annars höfunda skýrslunnar, kemur þessi niðurstaða ekki á óvart en hann áréttar að út frá þessu og öðrum niðurstöðum sé erfitt að draga altækar ályktanir um hvar í heilbrigðiskerfinu hagkvæmnin sé mest. Í skýrslunni sé einungis borinn saman heildarkostnaður við komu sjúklinga á heilsugæsluna, til sérgreinalækna, eða á fjórar göngudeildir innan Landspítalans. "Í þessari skýrslu er einungis kostnaðurinn skoðaður," segir Axel og segir að frekari greiningar sé þörf. "Það er ljóst að einhvers staðar þarf að byrja og ég held að þetta sé góð byrjun. Skýrslan opnar að öllum líkindum fleiri dyr en hún lokar en það er mikilvægt að halda þessari vinnu áfram," segir hann. Axel bendir á að Íslendingar verji nú ríflega níu prósentum af landsframleiðslu í heilbrigðiskerfið sem sé hátt á vestræna mælikvarða. Enn fremur er greining á þörfum mikilvægari í þessum geira en í mörgum öðrum þar sem umfang þjónustunnar ræðst ekki fyrir hefðbundið samspil framboðs og eftirspurnar á frjálsum markaði heldur er það háð miðstýrðum ákvörðunum stjórnvalda.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×