Innlent

Miðlunartillaga lögð fram?

Ríkissáttasemjari vill ekki segja hvort miðlunartillaga verður lögð fram á næstunni í kennaradeilunni. Sá möguleiki var ræddur á fundi með forystumönnum samninganefndanna í morgun. Formlegur samningafundur hefur ekki verið haldinn í dag. Menn gengu ábúðarfullir milli herberja í húsakynnum ríkissáttasemjara síðdegis í dag eftir að Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari og forystumenn samninganefndanna höfðu slitið fundi á hádegi. Ásmundur neitar því ekki að möguleiki á miðlunartillögu hafi verið meðal þess sem rætt var á þeim fundi. Hins vegar segir hann ekkert nýtt að frétta af kjaradeilunni enn sem komið er. Samninganefndinar sjálfar hafa ekki fundað saman enn í dag en hafa rætt saman innbyrðis. Síðast var lögð fram miðlunartillaga í deilu um kjör háseta á Herjólfi í fyrra en hún skoðast sem lokaúrræði. Um slíkar tillögur gilda sérstakar reglur. Miðlunartillögur fara fram hjá samninganefndunum og bornar undir atkvæði félagsmanna. Ef meira en fjórðungur atkvæða er greiddur gegn henni, skoðast hún felld. Ef miðlunartillagan er samþykkt þarf engu að síður að ná sátt um framtíðarfyrirkomulag kjarasamninga grunnskólakennara á samningstímanum. Það gæti tekið allt að tvær vikur að greiða atkvæði um miðlunartillöguna. Það er svo í valdi kennara að ákveða hvort verkfalli verður frestað á meðan.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×