Innlent

Ofbeldi gegn börnum vanmetið

Umfang ofbeldis gegn börnum hér á landi er vafalítið vanmetið, að áliti Geirs Gunnlaugssonar, barnalæknis og forstöðumanns Miðstöðvar heilsuverndar barna. Hann telur gróft líkamlegt ofbeldi þó heldur á undanhaldi, en ekki gegni endilega sama máli um andlegt ofbeldi, því erfitt sé að meta umfang þess og eðli. "En ég tel að allir myndu skrifa undir að þetta ofbeldi sé vanmetið," sagði hann. Á málþingi sem haldið var undir stjórn rektors Háskóla Íslands og Umboðsmanns barna á föstudag var fjallað um rannsóknir á högum og háttum íslenskra barna. Geir, sem flutti erindi á ráðstefnunni, lagði mikla áherslu á að auka skilning á fyrsta stigi forvarna gegn ofbeldi á börnum. "Þær eru notaðar til að koma í veg fyrir að ofbeldi eigi sér stað," sagði hann. "Í heilsugæslunni getur verið um fræðslu um uppeldismál að ræða, hvernig hægt er að bregðast við ákveðnum aðstæðum sem geta komið upp og hvernig foreldrar geta tamið sér önnur viðbrögð en þau sem eru undanfari ofbeldis, til dæmis við óværð og gráti barna. Þá þarf barnalöggjöfin að vera styðjandi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×