Erlent

Hart barist í Fallujah

Loftárásir standa nú yfir á borgina Mósúl í Írak, og harðir bardagar standa í Fallujah. Í Bagdad berjast þjóðvarðliðar við skæruliða. Mikið mannfall hefur verið undanfarinn sólarhring. Átökin í Írak eru í raun og veru stríð. Bandaríkjamenn segjast hafa meirihluta borgarinnar Fallujah í Írak á valdi sínu, en átök við skæruliða og hryðjuverkamenn halda þó áfram í suðurhluta borgarinnar. Talsmenn hersins segja um sexhundruð skæruliða hafa verið drepna undanfarna fjóra sólarhringa, frá því að áhlaupið á borgina hófst. Átján bandarískir hermenn og fimm írakskir hafa fallið síðan að áhlaup á Fallujah hófust og 178 hafa særst. Hermenn fara nú hús úr húsi í leit að hryðjuverkamönnum. Í nótt var meginmoska borgarinnar eyðilögð. Talsmenn rauða hálfmánans segja matar- og vatnsbirgðir hafa verið sendar til borgarinnar, og að ástandið þar sé skelfilegt. Bandaríkjaher gerði í morgun loftárásis á skotmörk í borginni Mósúl í norður-Írak, en hún er þriðja stærsta borg landsins. Þar hafa uppreisnar- og hryðjuverkamenn gert fjölda árása á lögreglustöðvar í vikunni og götubardagar hafa verið tíðir. Og í Bagdad mátti heyra byssugelt og sprengingar. Þar tókust uppreisnarmenn á við írakska þjóðvarðliða. Að auki lenti bandarískum hersveitum saman við írakska uppreisnarmenn skammt frá Abu Ghraib, þar sem fangelsið illræmda er staðsett.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×