Erlent

Ástand í Fallujah hræðilegt

Tugir þúsunda óbreyttra borgara hafast við í Fallujah í Írak við skelfilegar aðstæður, án matar, vatns og rafmagns. Uppreisnarmönnum virðist vaxa ásmeginn í Írak. Talsmenn hjálparstofnana segjast í vaxandi mæli hafa áhyggjur af óbreyttum borgurum í Fallujah, þar sem vatns- og rafmagnslaust er og matvæli af skornum skammti. Um fimmtíu þúsund manns munu vera í borginni, en áður en átök brutust út bjuggu þar um 300 þúsund manns. Sjö þúsund fjölskyldur halda til í flóttamannabúðum í útjaðri Fallujah. Hjálparstofnunum hefur verið haldið fyrir utan borgina og starfsmönnum þeirra meinað að flytja neyðarbirgðir þangað. Ástandið í Fallujah er sagt hörmulegt. Ekki er unnt að aðstoða slasaða, svo að fjölda fólks hefur blætt út á víðavangi. BBC hefur eftir írökskum blaðamanni, að lík hrannist upp á götum úti og að nályktin sé óbærileg. Talsmenn Bandaríkjahers segja áttatíu prósent borgarinnar á valdi hersveita, og að þeir búist við því að bardögum ljúki von bráðar. Hersveitir hafa þó látið sprengjum rigna yfir borgina í morgun, eftir fremur rólega nótt. Tíu þúsund bandarískir hermenn og tvö þúsund írakskir taka þátt í aðgerðunum í Fallujah, sem eru sagðar til þess ætlaðar að koma á stöðugleika fyrir kosningarnar sem fram eiga að fara snemma á næsta ári. Atburðirnir þar virðast þó fremur vera olía á eld uppreisnarmanna og skæruliða í súnní-þríhyrningnum svokallaða, og þar hafa þeir gert fjölda árása undanfarið. Borgin Mósúl er raunar sögð á valdi uppreisnarmanna, og hafa yfirvöld í Bagdad vikið lögreglustjóranum í borginni frá eftir að skæruliðar lögðu undir sig níu lögreglustöðvar, stálu þar vopnum og skotheldum vestum, og kveiktu í stöðvunum í kjölfarið. Hermt er að sumir lögreglumenn hafi gengið í lið með uppreisnarmönnunum, sem munu nú halda uppi lögum og reglu í Mósúl. Talsmenn Bandaríkjahers viðurkenna að nokkur fjöldi uppreisnarmanna hafi komist frá Fallujah í upphafi og rekja megi fjölda árása í súnní-þríhyrningnum undanfarna daga til þess. Auk atburðanna í Mósúl hafa verið gerðar árásir í Bakúba, Tíkrít, Hawija, Samarra, Ramadi og í Bagdad. Ástandið er það slæmt, að alþjóðaflugvellinum í Bagdad hefur verið lokað ótímabundið og þau flugfélög, sem hafið höfðu áætlunarflug til Bagdad, hafa hætt að taka við bókunum. Yfirvöldum í Bagdad virðist vera umhugað að fréttaflutningur sé í takt við það sem þau vilja, og hafa sent fréttamönnum fyrirmæli um að gæta sín á því, að halda sig við opinberar útgáfur sannleikans í fréttaflutningi frá Fallujah.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×