Erlent

Friður í nánd?

Friðarumleitanir gætu hafist á ný innan skamms fyrir botni Miðjarðarhafs. Til stendur að kjósa nýjan forseta Palestínu fyrir 9. janúar næstkomandi. Pílagrímar flykkjast nú að gröf Jassirs Arafats, sem jarðsettur var í Ramallah í gær. Þeir leggja ólífugreinar, blóm og palestínska fána á gröfina. Ahmed Kúrí, forsætisráðherra Palestínu, hét því í morgun að forsetakosningar yrðu haldnar í Palestínu innan sextíu daga, eins og lög mæla fyrir um. Engar kosningar hafa verið haldnar frá því að Jassir Arafat vann yfirburðasigur í kosnungunum árið 1996, en nú stendur til að velja nýja forystusveit Palestínumanna. Mahmoud Abbas, fyrrverandi forsætisráðherra, þykir líklegur til að verða framarlega í flokki, þó að hann njóti lítils, almenns stuðnings. Hann hefur meðal annars gagnrýnt ofbeldisverk og var í gær tilnefndur formaður frelsishers Palestínu, PLO. Annar frambjóðandi hefur verið nefndur til sögunnar: Marwan Barghouti. Breska dagblaðið Guardian hefur fyrir því heimildir, að Barghouti, sem situr í fangelsi í Ísrael, íhugi framboð. Hann er vinsæll og herskár leiðtogi. Yfirlýsing George Bush þess efnis, að hann sjái fyrir sér stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna á næsta kjörtímabili sínu, hefur vakið athygli. Talsmenn Palestínumanna segjast þó ekki telja nauðsynlegt að bíða í heil fjögur ár með stofnun ríkisins. Friðarvegvísirinn svokallaði sé enn til staðar og rétt sé að halda sig við hann. Abdullah Jórdaníukonungur tók í sama streng í morgun og hvatti Bandaríkjamenn til að leggja áherslu á friðarvegvísinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×