Erlent

Í framboð úr fangelsi

Palestínumenn kjósa sér nýjan forseta í síðasta lagi 9. janúar, sagði Ahmed Qureia, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, sem hét því að láta kosningar fara fram eins fljótt og auðið er. Samkvæmt palestínskum lögum þurfa þær að fara fram innan 60 daga frá andláti forsetans. Marwan Barghuti, einn vinsælasti forystumaður Palestínumanna, hefur ákveðið að bjóða sig fram þrátt fyrir að hann afpláni nú fimmfaldan lífstíðardóm vegna morða sem ísraelskur dómstóll fann hann sekan um. Palestínumenn óskuðu í gær eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins til að tryggja að kosningarnar færu vel og örugglega fram. Stefnt hafði verið að því að kjósa forseta, þing og sveitarstjórnir snemma á næsta ári en andlát Arafats varð til þess að flýta verður forsetakosningunum. Michel Barnier, utanríkisráðherra Frakklands, hvatti í gær til stofnunar Palestínuríkis eins fljótt og auðið væri, jafnvel þó landamæri þess væru aðeins ákveðin til bráðabirgða fyrst um sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×