Erlent

Mikil nálykt yfir Fallujah

Nálykt liggur yfir borginni Fallujah í Írak, þar sem sveitir Bandaríkjamanna og Íraka herja á skæruliða. Árásum fjölgar í súnni-þríhyrningnum í grennd og uppreisnarmenn hafa náð borginni Mósúl á sitt vald. Talsmenn bandarískra og írakskra hersveita segja yfir þúsund skæruliða hafa verið drepna í Fallujah, og að tvöhundruð hafi verið handteknir. Hernaðaraðgerðum sé að mestu lokið. Enn er þó barist á nokkrum stöðum í borginni. Talsmenn hjálparstofnana segjast hafa áhyggjur af óbreyttum borgurum í Fallujah, þar sem vatns- og rafmagnslaust er og matvæli af skornum skammti. Um fimmtíu þúsund manns eru í borginni, en áður en átök brutust út bjuggu þar um þrjú hundruð þúsund. Sjö þúsund fjölskyldur halda til í flóttamannabúðum í útjaðri Fallujah. Ekkert er vitað um hversu margir óbreyttir borgarar hafa fallið í átökunum, en BBC hefur eftir írökskum blaðamanni, að lík hrannist upp á götum úti og að nályktin sé óbærileg. Í dag var bílalest rauða hálfmánans leyft að fara inn í útjaður borgarinnar með neyðarbirgðir, þar sem bandarískar hersveitir hindruðu för á þeim forsendum að ekki væri unnt að tryggja öryggi hjálparstarfsmannana. Í nágrannaborgun Fallujah hafa einnig brotist út átök, og ljóst er að þar eru að hluta á ferð skæruliðar sem flýðu frá Fallujah. Borgin Mósúl er meðal annars sögð á valdi uppreisnarmanna. Í útvarpsávarpi í dag lýsti Bush Bandaríkjaforseti hetjulegum framgangi eigin hermanna. En hann ræddi einnig hættuna á frekari ofbeldisverkum að aðdraganda kosninga í janúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×